Um sundkennslu

Um sundkennslu á Íslandi

Þó svo allir grunnskólanemendur landsins fari í skólasund eru ekki allir sem ná góðu tökum á sundinu. Arnar Felix Einarsson segir ástæðurnar fyrir þessu geta verið af ýmsum toga, og spannað allt frá vatnshræðslu yfir í motþróa á unglingsárum. Arnar rekur sundskólann Sundsprett og heldur þar námskeið fyrir bæði börn, unglinga og fullorðna.

„Námskeið eru í boði jafnt fyrir þá sem skortir undirstöðuna en líka fyrir hina sem vilja ná enn betri tökum á sundinu. Barna- og unglinganámskeið eru haldin regulega og mánaðarlega fara fram framhaldsnámskeið í skriðsundi sem m.a. njóta vinsælda hjá þeim sem stunda sjósund sem og fólki sem æfir þríþraut,“ útskýrir Arnar.

Yngstu börnin eiga líka sinn sess há Sundspretti en Arnar heldur sérstök námskeið fyrir krakka á aldursbilinu 4-6 ára. „Þar læra börnin allrafyrstu sundtökin og mæta fyrir vikið mjög vel undirbúin í skólasundið. Á þessum aldri eru börnin farin að verða móttækileg fyrir einfaldri leiðsögn og við tökum sundnámið í fjórum stigum, hálfan vetur í senn. Á fyrsta stiginu læra börnin að fljota á maganum og fara á kaf, þvínæst vinnum við með skriðsundsfætur og gerum börnin að litlum sundfótamaskínum, og byggjum svo ofan á það.“

Arnar segir að fólk ætti ekki að þurfa að skammast sín fyrr að hafa ekki lært almennilega að synda, en um leið sé ávinningurinn mikill að kunna sundtökin vel, geta þá nýtt allar góðu sundlaugarnar hringinn í kringum landið og stundað þá góðu heilsurækt sem sundið er. „Það er ekki óalgengt að sundkennslan misfarist hjá fólki og alveg hægt að fara í gegnum allan grunnskólann án þess að læra amennilega að synda. Sumir sem koma til mín eru hálf-skömmustulegir, segjast kannski hafa stolist til að skrópa í sundinu á sínum tíma, eða ekki treyst sér í tímana út af einhverjum stelpuvanda sem fylgdi unglingsárunum. Aðrir hafa alist upp erlendis þar sem sundkennsla var ekki hluti af venjulegu námi.“

Það fer eftir hverju tilfelli hvernig Arnar nálgumst sundkennsluna. „Yfirleitt þarf að byrja á grunninum og vinna vel með líkamsstöðu og hreyfingar, en ef t.d. að rót vandans er vatnshræðsla byrjum við á að venjast lauginni hægt og rólega og lærum að treysta vatninu. Ef fólk fælist vatnið kemur það fram í spennu í öllum líkamanum sem veldur því að líkaminn flýtur ekki vel.“

Kennt er í litlum hópum með helst ekki fleiri en átta nemendum í einu, en sundkennslan fer fram í einstaklingstímum þegar svo ber undir.

Meðal þess sem þarf að vinna með svo sundtæknin sé góð eru réttar hreyfingar, rétt öndun og réttur taktur. „Oft gerist það að fólk kemur á námskeið, ætlar einfaldlega að keyra sundið í gegn og buslar áfram. Þá verð ég að segja stopp enda byggir námskeiðið umfram allt á því að læra réttu tæknina. Ef tæknin er rétt þá vinnur fólk með vatninu og útkoman verður að hægt er að synda betur og lengur, og nánast vera endalaust ofan í lauginni.“

Skriðsundsnámskeið Sundspretts njóta töluverða vinsælda og segir Arnar það meðal annars tengjast aukinni ástundun sjósunds. „Þegar synt er í sjónum dugar gamla góða bringusundið ekki vel enda fær fólk þá hverja einustu öldu í fangið. Í sjónum er skriðsundið eiginlega það eina sem dugar. Þá setur sundmaðurinn ölduna undir sig og andar til hliðar og aftur.“